Ný súpergrúpa að fæðast?
Hvað gerist þegar raunverulegir hæfileikar mæta saman á sviði, ekkert autotune eða playback? Jú - það gerast galdrar, en það var það sem ég upplifði sumardaginn fyrsta. Þegar vinkona Eyþórs Inga The Voice keppandinn og Seattle tónlistarkonan Savanna Woods kom í Bæjarbíó. Með þeim voru ekki bara einhverjir hljóðfæraleikarar, þrjár Íslenskar goðsagnir mættu með.
Ég er ekki að skrifa frétt eða umfjöllun hér heldur beint frá hjartanu, svo hér kemur slangur (sorry pabbi), blót og er með ADHD svo þetta gæti farið hingað og þangað, en nóg um það, byrjum á byrjuninni. Þó ég sé mjög svo sammála ADHD bróður mínum Dave Grohl um að það sé er ekki hægt að keppa í tónlist eða listum, hef ég samt alltaf ótrúlega gaman að The Voice því þar sér maður oft óslípaða demanta og önnur undrabörn. Kvöld eitt þegar ég var eitthvað að renna yfir Instagram story þá poppar þar upp Eyþór Ingi ásamt söngkonu sem ég kannaðist eitthvað við, jú bíddu þetta var (afsakið orðbragðið) fucking Savanna Woods sem var keppandi í The Voice úr þáttaröð 20 ef minnið bregst mér ekki. Þau voru að syngja saman! WHAT! Saman tóku þau lagið Black hole sun sem hún einmitt gerði óaðfinnanlega. Hér fyrir neðan er upptaka af þessu sem ég sá í instagram-story hjá Eyþóri. En ég hef fylgst örlítið með henni síðan ég sá hana í þættinum, og þótti merkilegt að sjá hana með vini sínum frá litla Íslandi.
Þau kynntust við óvenjulegar aðstæður, þegar Savanna kom fram sem leynigestur á Þorrablóti Íslendingafélagsins í Seattle 2023. Þar stigu þau saman á svið og eldingin sló niður, bæði tónlistarlega og vináttulega. Síðan þá hafa þau haldið áfram að styrkja þessa vináttu og listræna tengingu, sem nær nú hápunkti sínum með tónleikum þeirra á Íslandi ásamt einvala liði hljóðfæraleikara (kem sérstaklega að þeim galdramönnum síðar) en já komum okkur nú að efninu! Tónleikar þeirra í Bæjarbíó!
Maggi Gnúsari bjargar kvöldinu
Ísabella dóttir mín fékk að fara með, en það var skilyrði að ég fengi lánaðan símann hennar til að taka myndir fyrir þessa grein sem ég skrifa núna, því ég gleymdi að bóka ljósmyndara (vísa í áðurnefnt ADHD.. Ég er að læra þetta allt, s.s. að vera ritstjóri eins og pabbi) og ætlaði að bjarga mér með hennar frábæra síma. Við finnum sætin okkar en Hulda systir sem er mikill aðdáanadi Eyþórs fékk að fara með okkur. Ég er svona að skoða salinn og finna staðsetningar fyrir mig til að stökkva og taka myndir, þegar sé ég andlit sem ég kannast við, sá var með myndavél, jú! Þetta var viðburðaljósmyndarinn Maggi Gnúsari! Ég rauk af stað, stökk til hans og spurði “Hæ, fyrir hvern ert þú að taka myndir núna?” Ég kannski var aðeins of spenntur að sjá þarna lausn vandamála minna svo hann hrökk í kút heilsar mér og svarar “ég er nú bara að taka myndir fyrir sjálfan mig og Eyþór” Ég sýni honum Samson.is peysuna mína og kynni örstutt fyrir honum hvað ég er að gera, við sammælumst um að ég fái að nota myndirnar hans hér! JÁ þetta er komið! Ég fæ að njóta kvöldsins alveg!
Þegar þú færð alvöru Seattle grugg söngkonu með þá hæfileika sem Savanna Woods hefur þarf landsliðið að mæta, það er ekkert annað í boði
Heyrðu jæja, tölum nú um stjörnur kvöldsins! Eyþór Ingi kemur á svið ásamt geimverunni, undrabarninu og gítarsnillingnum Óskari Loga Ágústsyni. Af hverju segi ég geimvera? Jú það er enginn mannlegur sem spilar svona á gítar! Hann er meðlimur í einni af mínum allra uppáhalds íslensku rokkböndum The Vintage Caravan (okok fókus, þú ert að skrifa um þessa tónleika Steindór!) Það er svo margt sem mig langar að segja um hann og þetta band, en það er sér grein sem ég þarf að gera fljótlega! Á trommum var ekki bara einhver session spilari nei nei, Benedikt Brynleifsson trommari Mezzoforte, en hann sést ósjaldan á stórum viðburðum og með færasta tónlistarfólki landsins. Benna þekki ég ekki persónulega, bara rekist á hann á flakki mínu kringum viðburði, en það sem ég þekki af honum er að hann er alvöru töffari með gott hjartalag og einstaka hæfileika. Sama á við um val á bassaleikara kvöldsins. Ingi Björn Ingason hefur verið á þeytingi í tónlistarbransanum síðustu 15–20 árin. Hann hefur spilað með fremsta tónlistarfólki landsins, troðið upp um allan heim, látið ljós sitt skína á sviðum leikhúsanna, verið tíður gestur í sjónvarpi og útvarpi og sett fingraför sín á tugi hljómplatna—já, svona maður sem er einfaldlega alls staðar.
Þegar tónlistarfólkið nánast gleymir sér því þeim finnst svo gaman, þá veistu að kvöldið verði ógleymanlegt. Það gerðist á þessum tónleikum
Ég elska fátt meira en að sjá þegar tónlistarfólkið er að skemmta sér á sviði en ekki bara að mæta í vinnuna. Á þessum ógleymanlegu tónleikum þá leið manni meira eins og maður væri að horfa á vini saman í æfingarhúsnæði að leika sér og hafa gaman, ekki eins og maður væri á tónleikum heldur eins og maður væri fluga á vegg. Það merkilega við þetta er að þau nánast æfðu ekkert því Savanna kom bara kvöldinu áður og meira að segja gleymdi Eyþór (annar ADHD bolti) að láta bandið vita af einu laginu, strákarnir höfðu rétt tekið hálfa æfingu saman, og eina með henni, en VÁ þau hljómuðu eins og þau hefðu ekki gert annað síðasta áratuginn, og mér þótti ótrúlega gaman að sjá hvað Savanna var dáleidd af Óskari eins og ALLIR þetta kvöld. Drengurinn er náttúrulega bara eitthvað annað. Benni var hjartsláttur kvöldsins og eitt gott dæmi um hvað þetta var einlægt, persónulegt og náin stemmning, en eftir hlé voru strákarnir að fara að telja í eitt lag þá heyrist bakvið trommusettið “Eyþór bíddu aðeins ég ætla ná mér í eitthvað að drekka” svo stökk Benni bara á bakvið. Allt kvöldið var umvafið einstökum göldrum, þau tóku lög eftir hvort annað ásamt því að taka lög eftir Prince, Led Zeppilin, Soundgarden, AD/DC og að sjálfsögðu tóku þau lagið “Zombie" með The Cranberries. Ingi Björn er virkilega fær og skemmtilegur á sviði, hann er með - en ekki eins og margir bassaleikarar sem eru nánast eins og bakraddasöngvarar og hreyfast varla. Hann spilar á bassann en ekki rétt svo slær á hann. Ingi var hluti af heild en ekki uppfylling en eins og ég sagði hér var ég vitni að því að súpergrúppa var að fæðast og Ingi Björn var kominn með nafn á grúppuna og allt. Á milli laga eins og Eyþóri er einum lagið var mikið grín og mikið gaman, en Ingi stakk uppá að nafnið á bandinu væri “Savanna tríóið” if you know, you know….
Savanna er með ekta grunge rödd og gríðarlega útgeislun og ég skil hvers vegna hún og Eyþór ná svona vel saman því hún er með frábæran húmor líkt og hann sem gerði upplifunina ennþá skemmtilegri
Kelly Clarkson, mentor hennar í The Voice, lýsti tónlist Savönnu sem „eins og Patty Griffin og Nirvana hefðu átt barn saman“ lýsing sem vekur athygli, en á sér skýra rót í alvöru Seattle-rokki og dýpri þjóðlagasál. Sú lýsing er bara spot on að mínu mati. Annað sem hefur verið sagt; „Mér finnst þú einstaklega yfirveguð og afslöppuð manneskja, og að heyra þá rólegheit í svona kraftmikilli rokkrödd er stórkostleg andstæða.“ – Nick Jonas
Ég hef verið að hlusta á hana eins og ég segi, en að sjá hana svona á sviði með berum augum og hlusta er ógleymanlegt, (já ég veit, skrifa þetta orð oft en það er satt!) og ég trúi því að við eigum eftir að sjá meira af henni. Þeim fannst alla vega það gaman að þau spurðu salinn hvort þau ættu ekki bara að gera þetta árlega, og viðbrögðinn létu ekki á sér standa, Spurnnig hvort það þurfi ekki stærra húsnæði næst. En til gamans má nefna það að Savanna ELSKAR Ísland og hefur komið hér samtals 9 sinnum. Svo við getum svo sannarlega gripið í gamla góða og hallærilega frasann “Íslandsvinkona”