Mark Seliger og altaristáknið sem varð að einni helstu ljósmynd rokkmenningarinnar
Eftirminnilegasti bolur rokkheimssögunnar var ekki bara klæðaval, heldr var hann yfirlýsing. Árið er 1992, Nirvana er á heimsferð með Nevermind og Mark Seliger fékk það verkefni að mynda bandið fyrir Rolling Stone. Hann sendi einfalda beiðni kvöldið áður: „Gæti Kurt komið í bol án áletrunar?“
Daginn eftir mætti Cobain í sólgleraugum, með hnepptan jakka. Þegar hann tók hann af sér, var áletrunin augljós: „Corporate magazines still suck.“ Rolling Stone ákvað að kyngja skotinu og setti myndina á forsíðuna. Fallegt dæmi um þýlyndi fyrirtækjamaskínunnar.
Árið 1993, á In Utero tímabilinu, hitti Seliger bandið aftur í Kalamazoo, Michigan. Andrúmsloftið var annað. Kurt mundi eftir honum og kunni að meta að Seliger hafði ekki reynt að skipa honum fyrir. Myndatakan varð átakalaus, en Seliger vildi eitthvað meira en bara hefðbundna „bandið í leðurjökkum“-stemningu.
Þannig varð altarismyndin til. „Systir mín hjálpaði mér að smygla inn höfuðum af New York Dolls dúkkum,“ sagði Seliger. Hann raðaði þeim upp ásamt visnuðum rósum sem hann hafði pantað frá blómabúð – því auðvitað þurfa rósir að vera hálfdauðar til að vera nógu dramatískar. „Ég vildi skapa mynd sem væri meira listaverk en hefðbundin andlitsmynd. Kurt var alveg með á nótunum og bandið var spennt fyrir þessu.“
Seliger reyndi mismunandi uppstillingar með hinum meðlimum bandsins, en ekkert hafði sama þunga og Cobain einn með þessu “dúkkur-sem-gætu-leikið-í-hrollvekju konsepti. „Það var eitthvað í augnaráðinu hans sem tengdi myndina saman,“ sagði hann. „Svo mikil nærvera, svo mikil fegurð, jafnvel með allt sem hann hafði gengið í gegnum – andlega og líkamlega.“
Niðurstaðan? Mynd sem lítur út eins og póstkort frá martraðarkenndum sirkus, þar sem brúðudúkkur með tómar augntóftir stara beint í sál þína – og eitt áhrifamesta portrett tónlistarsögunnar.