„Ég tók Kurt Cobain á þetta og smashaði gítarinn minn“

Gulli Sigurjons um tónlist sem bjargar lífi, country með karakter og hvernig eitt komment næstum drap drauminn – en ekki alveg

Lestrartími: 5 mínútur

Það er eitthvað einkennilega hlýtt við að heyra einhvern segja: „Ég tók Kurt Cobain á þetta og smashaði gítarinn minn.“ Þetta er fyrsta minningin sem Gulli Sigurjons, tónlistarmaður úr Grafarvoginum, dregur fram þegar hann rifjar upp hvernig tónlistin festi sig í honum og hann í henni.

„Ég var bara tveggja ára þegar ég fékk fyrsta gítarinn minn í jólagjöf. Sama kvöld settu frændur mínir Nirvana á fóninn og ég, með einhverja innri eldingu, brosti á móti heiminum og... já, smashaði gítarinn. Fékk strax annan en mátti alls ekki smasha hann,“ segir hann hlæjandi.

Gítarinn sem hélt í mig

Tónlistin hefur síðan þá verið eins konar líflína. „Ég einhvern veginn þekki ekkert annað en að spila á gítar. Hún hefur haldið huganum góðum. Tónlistin er lífið. Án hennar væri það leiðinlegt.“

Hann ólst upp í Grafarvoginum og segir þá stemningu hafa mótað sig. „Ég hef alltaf sagt það og segi það alltaf. Það er best að alast upp í Grafarvoginum. Ég var heppinn. Félagar mínir voru allir með sömu stefnu hvað varðar tónlist, og nokkrir þeirra hafa nú þegar elt draum sinn. Ég er loksins að gera það núna.“

Þegar hann var tólf ára byrjaði hann að læra á gítar hjá Arnari í Brimkló sem jafnframt var tónmenntakennari hans í grunnskóla. Svo fylgdu bílskúrsbönd, Músíktilraunir, skólaböll og síðan kom rappið. „Ég var sextán ára þegar vinir mínir plötuðu mig til að prófa rapp. Ég gaf út þrjú til fjögur lög sem urðu reyndar alveg vinsæl… allavega í Grafarvoginum!“ segir hann og hlær.

En svo kom óvissan, djömm og fikting. Þegar hann var nítján ára varð hann faðir í fyrsta sinn og segir það hafa bjargað sér. „Elsta dóttir mín bjargaði lífinu mínu. Þá varð tónlistin aftur eitthvað sem hélt í mig.“

Country og draumurinn sem beið

Þrátt fyrir stutt tímabil í trúbadorastarfsemi sat draumurinn um að semja eigin countrytónlist alltaf í honum. „Foreldrar mínir hlustuðu alltaf mikið á country og þegar ég fékk bílpróf var það það eina sem ég spilaði á rúntinum, mikið til ama sumra vina minna.“

Á hverju ári hittist fjölskyldan hans á svokölluðu Ömmustuði þar sem spilað er fram eftir nóttu. Það er hluti af því tónlistarblóði sem rennur í ætt hans. Og svo eitt kvöld í partýi, 23 ára gamall, samdi hann sitt fyrsta lag, þjóðhátíðarlag, sem var spilað aftur og aftur allan kvöldið. „Eyjamennirnir í partýinu hringdu meira að segja í vini sína í Eyjum og létu þá hlusta. Ég hef samt ekki gefið lagið út ennþá, kannski einn daginn.“

Það var ekki fyrr en í september 2024 sem Gulli samdi sitt fyrsta alvöru countrylag, Don’t Let Go. Þá var hann og barnsmóðir hans í sundur á tímabili og segir textann hafa komið til sín um miðja nótt, nánast eins og hann væri sendur.

„Ég trúi því alveg að stundum sé eitthvað meira að gerast. Ég hef meira að segja dreymt texta, vaknað og skrifað hann niður strax. Það lag er meira að segja væntanlegt!“

Ef þú þekkir ekki einhvern sem þekkir einhvern…

Eftir að hafa samið lagið vissi hann samt ekkert hvað hann ætti að gera næst. „Ég vissi ekkert hvert ég ætti að leita. Mér finnst vanta mun meira fyrir nýliða sem vilja koma tónlistinni sinni áfram. Tónlistarmenningin í dag getur verið svolítil klíka. Ef þú þekkir ekki einhvern sem þekkir einhvern, þá er erfitt að komast áfram.“

Það var pabbi hans sem benti honum á að hafa samband við Nikulás Róbertsson. Nikulás sendi hann áfram til Sigurgeirs Sigmundssonar, gítarleikara úr Gildrunni og Klaufum, og þá fór boltinn að rúlla. Þeir spjölluðu í rúman klukkutíma um lífið, tónlist og gítara. Sigurgeir hjálpaði honum að fullmóta lagið, spilaði sjálfur inn á það og tengdi hann við Jóhann Ásmundsson og Ásmund Jóhannsson í Studio Paradís. Þar bættist einnig Brynhildur Oddsdóttir við sem söng bakraddir. Lagið kom út 14. febrúar 2025.

Það hafði þó ekki alltaf verið sjálfgefið að halda áfram. Eftir að hafa sett upp tónlistarmyndbönd á TikTok fékk hann eitt neikvætt komment sem nægði til að hann eyddi öllu út. „Ég var sem betur fer hjá sálfræðingi á þessum tímapunkti og við fórum í gegnum þetta saman. Ég lærði að ég er mannlegur eins og hver annar. Það verða alltaf einhverjir töffarar með fölskum prófílum sem skrifa neikvæð komment. En maður getur ekki gert öllum til geðs. Einhverjir hlusta á þungarokk, aðrir á rapp.“

Að hugsa stórt en taka eitt lag í einu

Sjálfstraustið, sem hefur verið brothætt frá barnæsku, er nú á betri stað. „Ég hef unnið í því í gegnum tíðina og er bara á nokkuð öruggum stað í dag.“

Framtíðin er ekki skrifuð en draumurinn er skýr. „Ég tek einn dag í einu, eitt lag í einu. En draumurinn er að komast út að spila, þó ekki sé nema bara á litlum bar. Að fá að spila tónlistina sem maður elskar úti í heimi, það er það sem við stefnum að.“

Ef hann mætti tala við sjálfan sig sextán ára, þegar hann var nýbyrjaður að rappa og óvissan bankaði á dyrnar? „Ég myndi segja: Gerðu það sem þú elskar að gera. Þá vissi maður ekkert hvað eða hvernig maður ætti að gera hlutina. Maður var bara að lifa lífinu í samræmi við það.“

Instagram: instagram.com/gullisigurjons

🎧 Spotify: Gulli Sigurjóns

Previous
Previous

Gervigreindin og tónlistin: STEF kallar eftir réttlátu aðgengi að virðiskeðjunni

Next
Next

BEAR THE ANT bjó til lag úr Gulli