Hugskot Hugskot

Þið eigið von á góðu

Oft heyrum við talað um 69 kynslóðina. Það var þá sem ungu fólki fannst kominn tími til að gleðin tæki öll völd. “Make peace not war” var helsta slagorðið og peace-merkið blasti hvarvetna við. Ást og friður var ungu fólki efst í huga.

Þegar árið 1969 ber á góma er mér alltaf eitt efst í huga; nefnilega það, að í ágústmáuði það ár hóf Samúel göngu sína. En ég hef svo ekki gleymt því, að í sama mánuði stigu fyrstu mennirnir á tunglið og Woodstock-hátíðin var haldin.

Fleira mjög markvert rifjast upp

Bandarískir herforingja voru dregnir fyrir dómstóla vegna óhæfuverka í Vietnam-stríðinu, sem þá stóð sem hæst, hippasöngleikurinn Hárið fór sigurför sína um heiminn, Kínverjar völdu eftirmann Mao Tse-tung, á hóteli í Amsterdam eyddu John Lennon og Yoko Ono fyrstu viku hveitibrauðsdaga sinna í  rúminu, Charles Manson myrti Sharon Tate, eiginkonu kvikmyndaleikstjórans Romans Polanski, Ted Kennedy varð fyrir því óláni, að aka út af brú og verða þannig ungri konu að bana, Concorde 001 hóf sig í fyrsta skipti á loft, Golda Meir var kjörin forseti Ísraels og í Bandaríkjunum var Nixon settur í embætti forseta. Fyrir utan það, að Samúel hóf göngu sína á því herrans ári 1969, bar fátt markvert til tíðinda hér á Íslandi nema kannski ef nefna mætti að vatni var hleypt í gegnum lokur á aðal stíflugarði Búrfellsvirkjunar og fyrri hluti virkjunarinnar tekinn í notkun.

Þegar söngleikurinn Hárið var frumsýndur í Glaumbæ gáfu leikararnir sér tíma til að glugga í nýútkominn Samúel í hléi.

Ótölulegur fjöldi lagði til efni

Samútgáfan óx og dafnaði næsta aldarfjórðunginn. Snemma á ferlinum komu að útgáfunni þeir Ólafur Valtýr Hauksson og Sigurður Fossan Þorleifsson. Ólafur vann með mér á dagblaðinu Vísi og Sigurður, sem var lærður prentari, vann þá í Blaðaprenti. Eðlilegt að hann hefði umsjón með prentvinnslunni, en hann sá einnig um að skipuleggja dreifingu til um 400 blaðsölustaða allt í kringum landið. Ólafur kom eðlilega að ritstjórninni með mér. Til að ná fullkomnun fór hann um tíma til náms í blaðammennsku við háskóla í Bandaríkjunum.
  Þaulvanir fjölmiðlamenn og rithöfundar lögðu Samúel til efni og áhugaljósmyndarar jafnt sem atvinnuljósmyndarar voru ætíð boðnir og búnir til að mynda fyrir Samútgáfuna. Ég reyndi eitt sinn að telja þá sem höfðu skrifað fyrur blaðið eða ljósmyndað. Var kominn vel á annað hundraðið þegar ég hætti að telja.

Íslandsmet Samútgáfunnar

Í fljótu bragði kem ég ekki almennilega tölu á þau tímarit sem Samútgáfan prófaði að gefa út, en fyrst koma upp í hugann tímaritin Vikan, Bleikt & Blátt, Heimsmynd og Hús & Híbýli. Síðar átti ég eftir að annast útgáfu tímartsins Lífsstíl um tíma. Það var gefðið út í samvinnu við Eurocard, kom út þrisvar á ári og var dreift inn á hvert einasta heimili landsins sem og vinnustaði. Hundrað síðna glanstímarit litprentað í vel á annað hundrað þúsund eintökum í Danmörku. Slík útgáfa hefur enn ekki verið toppuð á Íslandi.

Bleikt&Blátt og kvenfólkið

Lesendakannanir sýndu að Samútgáfan var að gera lesendum sínum vel til geðs þá áratugi sem útgáfan stóð yfir. Samband íslenskra auglýsingastofa og Hagvangur gengust til dæmis iðulega fyrir skoðanakönnunum meðal landsmanna og voru niðurstöðurnar birtar opinberlega. Hús & Híbýli og Vikan gerðu það gott og þurfti engum að koma á óvart að lesenahópurinn væri stór. Karlmenn reyndust vera í meirihluta áskrifenda H&H, Vikan var meira lesin af konum. Lesendakannanirnar leiddu það líka í ljós, að Bleikt & Blátt vakti meiri áhuga kvenna en karla . Þeir voru hins vegar áhugasamari þegar Samúel átti í hlut. En það kom þó í ljós, að þriðjungur lesenda Samúels voru konur.

Sam og fjölbreytileikinn

Ekki verður farið út í að skoða efni tímaritanna í þessari atrennu, en umfjallanir um það sem hæst bar á síðum tímarita Sam eiga eftir að ryðjast hér inn hver á fætur annarri. Af nógu er að taka og fjölbreytnin út í það óendanlega þegar tímaritunum hefur verið flett hverju á fætur öðru. Bílar, híbýli, græjur, ferðalög, tónlist, leiklist, hrakfallasögur jafnt sem afrekssögur, grín og alvara, að ógleymdum myndsjám af öllu tagi, sem minnir okkur á alla fegurðina sem birtist á síðum tímaritanna, en Samúel og Vikan tóku þátt í framkvæmd og kynningum tengdum fegurðarsamkeppnum, sem fram fóru meðal annars á sviði Hollywood sem og á Broadway og Hótel Íslandi.

Ljósmyndafyrirsætan Anna tók því líka fegins hendi að fá að renna í gegnum nýjasta Samúel þegar gert var stutt hlé á myndatökum af henni í Laugardalslaug. - Neil Armstrong tók Samúel með sér til að hafa eitthvað við að vera eftir að hafa stigið fyrstur manna fæti á tunglið.

Tónleikar Samklúbbsins

Gleymum því svo ekki að Samúel annaðist keppnishaldið í valinu á Herra Ísland nokkrum sinnum. Samútgáfan lét sér nefnilega ekki bara nægja að vera áhorfendi og miðla efni heldur tók iðulega þátt í framkvæmd viðburða. Þannig stóð hann fyrir Samkomum í Glaumbæ og Klúbbnum þar sem fjöldi hljómsveita kom fram og spiluðu hver á fætur annari á öllum hæðum þessara stóru skemmtistaða. Gestir greiddu aðeins rúllugjaldið (kr. 25 til 35 krónur). Enda var troðfullt á öllum tónleikum Samklúbbsins.

Ungt fólk og Samferðirnar

Þá má ekki gleyma samvinnu Samúels og vinsælla ferðaskrifstofa sem stóðu í sameiningu fyrir stuðferðum ungs fólks á sólarstrendur eins og til Mallorka og Ibiza.

Þið eigið von á góðu

Látum þetta nægja í bili. Ég snara mér í að taka saman úrdrætti úr tímaritunum til að sýna ykkur, lesendur góðir, hér hjá honum Steindóri Samsyni … Þórarinssyni ætlaði ég að segja. “Þetta verður eitthvað”, eins og þeir segja.

 
Read More