Henriette Kjeldal teiknar sér sinn eigin heim, listakonan á bak við Moonchild Tattoing
Listakonan sem getur ekki setið á hugmynd
Henriette Kjeldal er ein af þeim sem eiga erfitt með að sitja á hugmynd. Hún fær hana og hún framkvæmir. Þess vegna kallar hún sig þúsundþjalasmið og hún hoppar á milli þess að húðflúra, mála á striga, búa litabækur, semur ljóð og það nýjast póstkortaklúbbur þar sem áskrifendur fá list mánaðarlega. Henný eins og hún vill láta kalla sig byrjaði að flúra undir nafninu Moonchild Tattoing og fólk fór að bóka hjá henni af því það vildi nákvæmlega hennar myndmál. Ekki fjöldaframleidd úr mynstrabók eða af google heldur hennar teikningar og sköpun. Nú er hún að fara einbeita sér meira að listabókum og myndlist, en selja hana gegnum vefsíðuna sína með því skemmtilega nafni insidehenrietteshead.is og leyfa fleirum að fá verkin heim og á sama tíma að bjóða fólki inn í sinn hugarheim.
Við höfum fylgst lengi með Henný og höfðum samband til að fá að heyra meira af þeim mörgu spennandi verkefnum hún er með í gangi og þegar við spurðuna hana hvernig hún myndi kynna sjálfa þig fyrir lesendum sem þekkja bara húðflúrin hennar.
„Ég er þræll huga míns“
„Ég kalla mig alltaf þúsundþjalasmið,“ segir hún og hlær. „Elska að skapa allskonar. Ég er eiginlega þræll huga míns stundum. Bjó til dæmis til stóran gullfiska lampa um daginn sem tók sex klukkustundir að búa til, bara af því að sú hugmynd skaut upp kollinum og þá var hún bara framkvæmd. Ég trúi fast á að allt sé hægt sé viljinn fyrir hendi. Ég er náttúrufíkill og introvert að mestu og get ekki lifað án kaffi.“ Henný hefur lengi verið að reyna að finna út hvar hún á heima í listinni. Ekki af því hún kunni ekki að mála heldur af því hún fann sig ekki í skilgreiningunum.
Leitin að stílnum sem má vera ókláraður
„Ég er búin að eltast við að finna minn stíl í svo mörg ár,“ segir hún. „En þessi eltingaleikur við flokk sem ég fann aldrei lá þungt á mér. Eins og ég væri ekki listakona nema að geta sett mig í einhvern flokk. Núna er ég á vendipunkti. Ég er að leyfa mér að skapa án þess að setja alltof háar kröfur á mig. Án þess að dæma mig á meðan ég er að skapa. Að vinna hraðar og ekki festast í smáatriðum of lengi. Satt að segja veit ég bara ekki hvort ég sé með neinn sérstakan stíl ennþá. Þarf ég þess?. Ég veit það ekki. Ég er bara að reyna að finna sjálfa mig í listinni minni án pressu og án ótta við skoðarnir annarra.“ Þetta heyrist líka þegar hún talar um húðflúrin. Hún byrjaði einfalt en fór svo að elta það sem hún hafði sjálf áhuga á.
Frá bohemian yfir í náttúruna
„Þegar ég byrjaði að flúra þá var ég í meiri bohemian stíl og kannski einfaldari hönnunum. Svo fann ég mig í öllu tengdu náttúrunni, sérstaklega blómum. Núna er þetta blanda af þessu. Smá skraut, blóm, dýr og fínar línur. Það er það sem ég er þekkt fyrir í dag.“ Það sem gerir söguna hennar skemmtilega er að hún vinnur ekki bara í pakkaðri vinnustofu með Pinterest vegg. Hún er í raun að þýða hugmyndir fólks yfir á líkama og þarf að láta þær passa hreyfingu og formi líkamans.
Að þýða annarra hugmyndir yfir á húð
„Stundum er erfitt að koma hugmynd úr huga annarrar manneskju í sjáanlegt form,“ segir Henný. „Það þarf að breyta hugmyndum eftir því hvar flúrið á að vera. Vöðvar og línur í líkamanum ráða miklu. Stundum fara nokkrir tímar bara í þróunina. En útkoman er alltaf skemmtileg áskorun.“ Málverkin verða hins vegar til á allt annan hátt. Þar er hún ekki að uppfylla draum kúnnans heldur sýna eigin. Þegar talið berst að myndlistinni sér maður hvað hún ljómar og fyllist af mikilli ástríðu.
Hugarfóstrin sem þurfa pláss
„Stundum heyri ég línu í bíómynd sem grípur mig og út frá henni þróast pæling. Stundum er ég að ganga í gegnum eitthvað sem ég set svo á striga. Ég kalla þetta alltaf hugarfóstur. Fæ litla hugmynd sem svo stækkar og stækkar í hausnum á meðan ég sinni daglegu lífi. Einn daginn er hugarfóstur orðið svo stórt að ég verð að búa til tíma til að mála og koma því út. Það er mjög andlegt ferðalag og ég set mikið af mér sjálfri í sum verkin.“ Henriette er ófeimin við að segja að þrjóskan bjargaði listinni.
Hrúta þrjóskan sem hélt henni gangandi
„Ég verð fyrst að þakka hrúta þrjóskunni minni,“ svarar Henný þegar við spyrjum hvað er hennar helsti drifkraftur. „Hún hefur komið mér ansi langt. Sem barn var þetta það eina sem ég fékk hrós fyrir. Uppeldið var ekki alltaf gott og ég lærði að setja mitt virði í það sem ég skapaði. Síðustu ár hafa verið mikill andlegur rússibani og ég er í fyrsta skipti að leyfa mér að vera til ófullkomin. Bara gera. Ekki alltaf laga.“ Konurnar sem sjást í verkunum hennar eru ekki tilviljun.
Konurnar eru hún sjálf
„Konurnar eru mín úrvinnsla úr erfiðu sambandi sem ég var í,“ segir hún. „Ég kom brotin út úr því en setti það á striga og setti mig saman aftur. Allar þessar konur eru ég. Mismunandi hlutar af mér. Eins og brotinn spegill. Svo er ég alin upp í sveit og það sést líka. Ég elska náttúruna og dýrin.“ Litabókin Undur Íslands varð til þegar hún varð bara að hægja á sér. Henný brann út enda mikið álag að byggja upp farsælan feril og leyfa ekki hugmyndum sínum að fæðast og hætti að flúra tímabundið og fór að skapa án þess að setja það strax í sölu.
Undur Íslands varð til þegar allt stoppaði
„Ég datt í kulnun,“ segir hún. „Hætti að vinna, lokaði mig af og skapaði. Ég vildi gera bók sem væri aðeins meira en bara að lita í kassa. Þess vegna setti ég inn fróðleik um staðina og dýrin. Ég vildi að fólk myndi líka eftir landinu okkar.“ Þegar hún talar um vefinn sinn er hún ekkert að gera það flóknara en þarf.
Confetti áskriftarklúbburinn
„Mér finnst bara gaman að senda fallega hluti til fólks,“ Svarar Henný þegar við ræðum um Confetti áskriftarklúbbin hennar. „Póstkortaklúbburinn er þannig. Að fá litríkt bréf heim sem gleður. Málverkin og eftirprentin eiga að gera það sama. Fólk á að geta hengt þetta upp eða gefið.“ Munurinn á húðflúrunum og málverkunum er henni sjónrænn og skýr.
Tvennt ólíkt en sama höndin
„Málverkin eru minn hugarheimur,“ segir hún. „Flúrin eru draumar kúnnans. En með mínu handbragði. Ég nota stundum sömu aðferð en á ólíkum flötum.“ Í lokin biður hún alla sem eru að byrja að gera nákvæmlega það sem hún gerði sjálf.
Ekki hætta að teikna
„Ekki hætta að teikna,“ segir hún. „Flestir hætta á unglingsárunum. Og leyfið ykkur að vera ófullkomin. Þetta á að vera gaman.“