„Ég var fengin í þetta alveg óvart“

Það kemur fyrir að maður dettur inn í lífið, bókstaflega. Eins og þessi unga kona frá Fáskrúðsfirði, einstæð móðir sem hafði ekki hugmynd um að hún ætti eftir að finna framtíðina sína í förðunarheimi kvikmynda og sjónvarps. Það er eitthvað sérlega heillandi við fólk sem lendir á réttri hillu án þess að hafa ætlað sér það, og sú saga er einmitt hennar.

Óvænt símtal breytir öllu

Allt byrjaði þegar Soffía Mjöll, sem vann að stuttmyndinni „Eigin kona“, hringdi í hana vegna þess að sá sem átti að sjá um förðun og hár forfallaðist. Þetta var í september 2024, og með því símtali opnaðist algjörlega nýr heimur fyrir hana. Hún hafði verið í fjarnámi, sinnt augnháralengingum og var í endurhæfingu og hafði aldrei séð þetta fyrir sér sem framtíðarstarf. Fyrsta verkefnið var eins og alvöru ævintýri. Hún uppgötvaði fljótt að engin tvö verkefni voru eins stundum var hún með hópi tuttugu manna á setti, stundum aðeins fjórum. „Það er svo ótrúlega fjölbreytt,“ segir hún. „Ég hafði enga hugmynd um hvað beið mín.“

Eitt eftirminnilegasta verkefnið var að farða Svandísi Dóru Einarsdóttur fyrir Óbygðarsetrið, nýjan þátt sem sýndur verður á RÚV. „Svandís er hlý og stórglæsileg kona, svo það var ekkert mál að vinna með henni. Óbyggðarsetrið er líka alveg einstakur staður, ég mæli með því að fólk kynni sér hann betur,“ segir hún brosandi.

Að gera frændann óhuggulegan

Erfiðasta og umfangsmesta verkefnið hingað til var þó stuttmyndin Snjóþungi. „Ég þurfti að gera Álfrúnu Helgu alveg gráa og sjúskaða, sem var hálf sorglegt því hún hefur svo yndislega útgeislun. Og það var erfiðisvinna að gera Þorvald Davíð, sem er frændi minn, óhuggulegan bónda með ör eftir skarð í vör,“ segir hún og hlær. Hún þurfti að vinna í kulda og roki, passa upp á að örin litu eins út í hverri töku og gera fingur hans kalnaða og skítuga. „Við vorum um tuttugu manns sem gistum á verbúðinni í Neskaupstað og þetta var algjör reynsluskóli,“ segir hún ákveðin.

Síðast vann hún með þýska tónlistarmanninum Kontrak, sem er með tæplega tvær milljónir fylgjenda á Instagram, og eyitsness í tónlistarmyndbandi sem kom út 2. maí. „Þetta var án efa skemmtilegasta verkefnið hingað til,“ segir hún. „Ég átti bara að púðra Kontrak en allt í einu var ég komin með fullt af aukahlutverkum sjá um förðun og hár fyrir Vanessu, vera staðgengill klæðskerans, og taka myndir fyrir teymið. Það voru stöðugar áskoranir en frábært fólk að vinna með. Við festum bílinn á hálendinu, nestuðum okkur vel, hlógum mikið og sköpuðum minningar sem ég mun aldrei gleyma.“

Draumurinn um London

Hún er þegar farin að undirbúa næstu skrefin sín. „Ég komst inn í Seventa Makeup Academy í London og stefni á að læra TV og kvikmyndaförðun með áherslu á mismunandi húðtýpur og litatóna,“ segir hún. Hún veit að þetta verður áskorun, sérstaklega sem einstæð móðir. „Ég hef takmarkað frí, en mamma mín hjálpar mér ótrúlega mikið með dóttur mína. Ég þarf bara að ákveða hvort við förum allar saman til London eða hvort ég taki námið í skrefum.“

Við skildum við hana, full af eftirvæntingu fyrir framtíðinni, og eigum örugglega eftir að sjá nafnið hennar á mörgum kreditlistum á næstu árum.

Next
Next

Dave Grohl og ADHD: Saga um takt, seiglu ásamt rokk & Roll